Fréttir frá 2018

10 25. 2018

Meginreglur um hvíldartíma

rafidnadarsambandid2

Mikið er leitað til skrifstofu RSÍ vegna vinnutíma og hvíldartíma. Því er tilvalið að minna á helstu hvíldartímareglur. Reglurnar eru byggðar á Evróputilskipun 2003/88/EB. Sömu reglur er að finna í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 og þær er einnig að finna í kjarasamningum. 

Í kjarasamningum eru reglurnar einnig útfærðar nánar og fjallað um hvernig skal fara með brot á reglunum. Allir kjarasamningar innihalda reglur um hvíldartíma og vinnutíma og byggja þeir að mestu á samningi ASÍ og Vinnuveitendasambandsins (forveri Samtaka atvinnulífsins) frá 1996. Tilgangur hvíldartímareglna er að tryggja að starfsmenn nái hvíld til þess að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna. Reglurnar eru því mikilvægar og almennt á ekki að brjóta þær nema nauðsynlegt sé. 

Í almenna kjarasamningi RSÍ og SA er fjallað um lágmarkshvíld í kafla 2.7. Þessi umfjöllun er tekin úr þeim samningi. 

Meginregla um 11 tíma hvíld

Meginreglan er að á hverjum sólarhring, talið frá byrjun vinnudags, fái starfsmenn 11 klst. samfellda hvíld. Ef það er hægt skal hvíldin vera að næturlagi. Það þýðir að óheimilt er að skipuleggja vinnu þannig að vinnutími fari umfram 13 klst. 

Undantekning – 8-13 tíma hvíld

Frá þessari meginreglu eru frávik. 

Á skipulögðum vaktaskiptum er heimilt að stytta hvíldartíma í 8 klst.

Það er einnig heimilt að lengja vinnulotu í allt að 16 klst. Skal starfsmaður þá fá 11 klst. hvíld í beinu framhaldi af vinnunni. Ef starfsmaður mætir seinna eða ekki til vinnu vegna þessa heldur hann reglulegum launum á meðan hann hvílist. Ef starfsmaður er beðinn um að mæta til vinnu áður en hann nær 11 klst. hvíld fær hann uppbótarhvíld sem nemur 1,5 klst. fyrir hverja klst. sem hvíldin skerðist. Sú hvíld skal tekin síðar, en heimilt er að greiða út 0,5 klst. af 1,5 klst. frítökurétti. Sama gildir ef starfsmaðurinn átti frí daginn eftir, þá reiknast frítökuréttur.

Hámarks frítökuréttur vegna vinnu á sama sólarhring getur mest orðið einn vinnudagur á launum. Frítökurétttur skal koma fram á launaseðli og veittur í hálfum og heilum dögum. Ef starfsmaður hættir störfum skal hann fá frítökuréttinn greiddan við starfslok. 

Einnig eru sérreglur um útköll, ef útkalli lýkur fyrir miðnætti má leggja saman hvíld fyrir og eftir miðnætti. Ef útkalli lýkur eftir miðnætti reiknast frítökuréttur miðað við muninn á lengstu hvíld og 11 klst. 

Algjör undantekning – Hvíld undir 8 klst.

Í algjörum undantekningartilvikum, svo sem þegar bjarga þarf verðmætum eða vegna ytri aðstæðna svo sem bilana eða veðurs, er heimilt að stytta hvíld niður fyrir 8 klst. Ef það er gert reiknast frítökuréttur líkt og fjallað var um að ofan (1,5 klst. fyrir hverja klst. undir 11 tíma hvíld) og að auki fær starfmaður greidda 1 klst. í yfirvinnu fyrir hverja klst. sem hvíldin fer undir 8 klst. Athugið að reglan um greiðslu klst. í yfirvinnu er ekki í öllum kjarasamningum. 

Að lokum

Starfsmenn Rafiðnaðarsambandsins eru alltaf tilbúnir til að aðstoða við útreikninga vinnutíma, hvíldartíma og frítökuréttar. Hægt er að hringja á skrifstofu RSÍ, senda tölvupóst eða koma í heimsókn. Einnig geta félagsmenn snúið sér til trúnaðarmanns á vinnustað. 

 

 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?