Fréttir frá 2018

02 27. 2018

Upplausn á vinnumarkaði í boði stjórnvalda

rafidnadarsambandid2Nú er að koma að úrslitastund í viðræðum á milli atvinnulífs og stjórnvalda við að reyna að koma í veg fyrir að kjarasamningum verði sagt upp. Á morgun er 28. febrúar og mun formannafundur ASÍ ræða stöðu kjarasamninga og leggja línurnar með hver afstaða aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands verður til þess hvort segja eigi kjarasamningum upp.

Nokkur vinna var lögð í málið af hálfu stjórnvalda til þess að greina allt milli himins og jarðar og reyndu fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna að koma með innlegg í umræðuna í dag en ljóst var tiltölulega snemma í þessu ferli (í raun hefur það legið fyrir allt undanfarið ár) að stjórnmálamenn munu ekki stíga skrefið og fella úr gildi úrskurði kjararáðs sem skammtaði þeim sjálfum launahækkanir sem eru langt umfram það sem almennt hefur gerst.

Í kjaraviðræðunum 2015 fóru nokkur aðildarfélög innan ASÍ fram á að fá 20% launahækkun og litlu munaði að allt keyrði um koll í efsta lagi samfélagsins, stjórnmálamenn vöruðu við því að landið færi á hliðina ef rafiðnaðarmenn yrðu svo frekir að krefjast þessarar hækkunar. 

Þegar kjararáð ákvað hins vegar að úthluta hátt í 50% launahækkunum til alþingismanna þá heyrðist ekki múkk í alþingismönnum né Seðlabankastjóra um að stöðugleika væri ógnað. 

Afleiðingin var samt sem áður að launakjör mjög víða í samfélaginu fylgja þingfararkaupi en má nefna ýmis launakjör í stjórnum sveitarfélaga, sum hafa hafnað þessari hækkun en önnur hafa ákveðið að njóta þeirra. 

Í fréttum í dag bárust fréttir af því að laun stjórnar Landsvirkjunar hafi hækkað verulega á milli ára en laun stjórnar og stjórnarmanna hafa hækkað um 49% á milli ára sem að einhverju leyti er sökum gengisbreytinga en væntanlega má tengja það við línu kjararáðs. Það má alveg velta því fyrir sér hvort formaður stjórnar Landsvirkjunar hafi haft vitneskju um úrskurði kjararáðs og að úrskurðir þar hafi smitast inn til Landsvirkjunar. Samkvæmt heimasíðum Landsvirkjunar og Kjararáðs þá er formaðurinn sá hinn sami í báðum stjórnum.

En við stöldrum ekki við á þessum stað því efsta lagið í bankakerfinu virðist líka vera að endurheimta stöðu sína því nokkuð fínar launahækkanir virðast vera í þeim geira. 

Upplausn á vinnumarkaði í boði stjórnvalda!

Það er því augljóst að sú upplausn sem virðist vera framundan á vinnumarkaði er alfarið á ábyrgð stjórnvalda sem eins og áður sagði stuðla að aukinni misskiptingu í landinu í stað þess að reyna að stuðla að auknum jöfnuði! Það er jafnframt augljóst að í næstu samningalotu munu fjölmargir samningsaðilar miða kröfugerðir við úrskurði kjararáðs enda ekki óeðlilegt að almenningur sæki viðmið í úrskurði kjararáðsins. 

Innlegg stjórnvalda sem kom fram í dag mun varla hafa mikil áhrif á afstöðu formanna til uppsagnar.

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður Rafiðnaðarsambands Íslands

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?