Fréttir frá 2018

02 12. 2018

Stytting vinnuvikunar - fullyrðingar Samtaka atvinnulífsins

rafidnadarsambandidÞað var mjög áhugavert viðtal við fulltrúa Samtaka atvinnulífsins á Bylgjunni í morgun þar sem hann lýsti því yfir að stéttarfélögin stæðu í vegi fyrir því að mögulegt væri að stytta vinnuvikuna. Nú þekki ég ekki nákvæmlega hvaða tilvik hafa verið í vinnslu síðustu vikur eða mánuði á milli Samtaka atvinnulífsins (SA) og stéttarfélaga en ég man vel upplegg SA í kjaraviðræðum sem fóru fram 2015. Í þeirri samningalotu var nokkuð tekist á um styttingu vinnuvikunnar. 

Stéttarfélögin vildu leita leiða til að stytta vinnuvikuna og hækka dagvinnulaun þannig að fólk gæti dregið úr því að vinna yfirvinnu þ.e.a.s. að mögulegt væri að lifa af dagvinnulaunum einum saman. Það þýðir ekki að launafólk stýri því sjálft hversu mikla yfirvinnu það getur fengið en augljóst er að fólk reynir að bjarga sér og sækir oft þá vinnu sem er í boði.

Markmið SA var hins vegar að lengja dagvinnutímabilið, sem sagt að heimilt væri að vinna á dagvinnutaxta á lengra tímabili á hverjum degi. Þar var fyrst og fremst horft til starfa í ferðamannaiðnaðinum og vinnu á Keflavíkurflugvelli svo dæmi sé tekið. Markmiðið var sem sagt að gera öll störf sem tengjast flugi þannig úr garði gerð að í stað þess að starfsmönnum sé greidd yfirvinna eða vaktaálag þá skyldi fyrirtækjum vera heimilt að greiða dagvinnu á þeim tíma sem flestar flugvélar koma til landsins svo dæmi sé tekið. 

Jafnframt var það uppleggið að lækka gjaldið fyrir yfirvinnu sem mun gera það að verkum að fyrirtæki veigra sér síður við að ráða fólk í yfirvinnu þar sem yfirvinnan er ódýrari. Það er þvert á það sem frændur okkar Norðmenn gera en þeir greiða vissulega lægra gjald fyrir fyrstu tvo yfirvinnutímana en tvöfalda síðan yfirvinnugreiðsluna eftir það og það dregur verulega úr því að fyrirtæki fái starfsmenn til að vinna yfirvinnuna. Slíkt fyrirkomulag gæti virkað hjá okkur en SA hafa hingað til ekki viljað ræða þá leið.

Ég þekki ekki það stéttarfélag sem setur sig á móti styttingu vinnuvikunnar en þau eru nokkuð mörg sem setja sig upp á móti því að gera störfin verr launuð. Markmið okkar er að auka lífsgæðin með betri launakjörum.

Rafiðnaðarsambandið (RSÍ) er mjög áhugasamt um styttingu vinnuvikunnar og ekki er ólíklegt að krafa verði um það í næstu samningum. RSÍ tekur þátt í tilraunaverkefni hjá Reykjavíkurborg um styttingu vinnuvikunnar.

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður Rafiðnaðarsambands Íslands

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?