Fréttir frá 2017

09 14. 2017

Forsætisráðherra úr takti við launafólk

rafidnadarsambandid2Í gær fóru fram ræður ýmissa alþingismanna. Það fór heldur betur fyrir brjóstið á mér, og eflaust fleirum, þegar forsætisráðherra setti fram þá fullyrðingu að vinnumarkaðslíkanið væri ónýtt. Þar var vísað til þess sem gerist í nágrannalöndum okkar, aðilar vinnumarkaðar byrjuðu á því að meta svigrúm til launahækkana áður en samið væri. Gefið var í skyn að það væri eina verkefnið sem unnið væri fyrir samningalotuna.

Með þessu gaf hann í skyn að vegna frekju og yfirgangs, þá væntanlega verkalýðsfélaga, væru launahækkanir hér alltof miklar fyrir fólkið. Kröfurnar væru þá væntanlega úr öllu hófi og menn miðuðu ekki við efnahagslega stöðu.

Ekki minntist hann einu orði á ákvarðanir kjararáðs sem er skipað af hinu háa Alþingi. Í kjararáði sitja fulltrúar Alþingis til þess meðal annars að ákvarða hver laun alþingismanna eigi að vera auk annarra hópa sem einnig hafa hagsmunaaðila í ráðinu.

Frá árinu 2013 og til og með árinu 2016 hafa regluleg laun iðnaðarmanna, í nóvember, innan ASÍ hækkað um 22,9% þessu til viðbótar hefur framlag í lífeyrissjóði hækkað. Laun verslunarmanna innan ASÍ hafa hækkað um 24% á sama tímabili. Laun verkamanna hafa hækkað um 30,9%. Laun alþingismanna hafa hækkað um 70,9%.*

Það sér það hver maður sem sjá vill að launafólk á almennum vinnumarkaði hefur ekki verið leiðandi í launaþróun á þessu tímabili. Aðildarfélög innan ASÍ hafa einmitt reynt að ryðja brautina inn á nýjar slóðir til að tryggja efnahagslegan stöðugleika EN þar spila kjarasamningar ekki stærsta hlutverkið. Til að tryggja efnahagslegan stöðugleika þarf líka að tryggja félagslegan stöðugleika, tryggja grunnstoðir samfélagsins svo sem velferðarkerfið, menntakerfið og heilbrigðisþjónustu. Þetta er stóra myndin.

Nú er það svo að kjararáð, í umboði Alþingis, er að setja vinnumarkaðinn á hliðina með gríðarlegum launahækkunum til þessarra háu herra sem síðan kunna sig ekki og skammast í almúganum. 

Miðstjórn RSÍ lagði til á sínum tíma að skipan kjararáðs yrði endurskoðuð og þar yrði fulltrúi launafólks til þess að reyna að tengja ráðið við raunveruleikann.

Ef Alþingi mun ekki fella ákvarðanir kjararáðs úr gildi þá gefur það auga leið að mikil átök verða framundan á næstu árum. Ef menn halda að þetta reddist vegna þess að fólkið verði búið að gleyma þessu þá er það rangt. Misskipting er að aukast svo gríðarlega, stjórnvöld virðast vinna að því að brjóta niður velferðarkerfið og auka gæði þeirra ríku á kostnað þeirra sem minna hafa. Vonlaust er að gera breytingar á kjarasamningamódelinu nema að allt sé tekið með á sama tíma. 

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður Rafiðnaðarsambands Íslands

*Samkvæmt tölum hagdeildar ASÍ

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?