Fréttir frá 2017

06 27. 2017

Kjararáð - Sundrung samfélags

bordar 1300x400 08Enn og aftur ríður kjararáð á vaðið með verulegum hækkunum á launum hjá æðstu fulltrúum hjá Ríkinu. Ekki nóg með það að hækka laun nokkuð ríflega þá úrskurðar ráðið að launahækkun skuli gilda langt aftur í tímann. Eitthvað sem almenningi stendur nánast aldrei til boða og aldrei nokkurn tímann af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir. Eingreiðslur hlaupa á milljónum að þessu sinni! 

Það er hér með fært í bækurnar að sá aðili sem er búinn að hvellsprengja launarammann er Kjararáð sem starfar í umboði Alþingis. Það er sem sagt æðsta vald landsins sem hleypir af stað nýjasta höfrungahlaupinu sem aðilar vinnumarkaðarins hafa reynt að halda aftur af á síðustu árum. 

Með gríðarlegum launahækkunum sem skila sér í vasa þeirra sjálfra þá gat Alþingi ekki tekið á þessum málum, ekki vildu þeir skerða sinn hlut og báru við að Alþingi gæti ekki hlutast til um þessi mál. Það er rétt að Alþingi á ekki að hlutast til um að hækka laun alþingismanna eitt og sér en Alþingi getur ætíð stigið fram og stöðvað vitleysu sem þessa og hefði betur gert það.

Opinberir starfsmenn munu eðlilega sækja skýr viðmið í þessar launahækkanir og eingreiðslur enda mjög eðlilegt að þeir geri slíkt. 

Hættumerki eru þegar farin að sjást í efnahagskerfinu þó svo þau séu ekki eins alvarleg og fyrir Hrunið en nauðsynlegt er að halda rétt á spöðunum. Ljóst er að stjórnvöld í landinu ætla ekki að gera það og því spyr maður eins og börnin gera, af hverju eigum við að halda aftur af okkur og sitja ein eftir? Kjarasamningar munu losna í upphafi næsta árs að öllum líkindum sökum síendurtekinna úrskurða Kjararáðs. En ekki nóg með það að samningar losni því ljóst er að hópar munu eðlilega sækja sér viðmið í þessa úrskurði.

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður Rafiðnaðarsambands Íslands