Fréttir frá 2017

05 31. 2017

Launahækkun, orlofsuppbót og orlof

rafidnadarsambandid

 

Launahækkun 1. maí

Samkvæmt almenna kjarasamningi RSÍ og SA/SART og flestum samningum á almennum markaði, hækkuðu laun um 4,5% þann 1. maí sl. Félagsmenn ættu því að verða varir við þá hækkun á launaseðli þann 1. júní. Laun og allir launatengdir liðir (ekki endurgreiðsla á útlögðum kostnaði eins og ökutækjastyrkur) hækka um 4,5%. 

Sem fyrr hvetjum við félagsmenn til að skoða launaseðlana sína vel og sérstaklega þegar einhverjar breytingar verða, t.d. launahækkanir. Starfsfólk skrifstofu RSÍ er alltaf tilbúið að leiðbeina og aðstoða við lestur launaseðla. 

Orlofsuppbót og orlof

Orlofsuppbót greiðist með launagreiðslu 1. júní. Fjárhæð orlofsuppbótar er ákveðin í kjarasamningi en á almenna kjarasamningi RSÍ og SA/SART er hún 46.500 kr. Sú fjárhæð miðast við fullt starf en uppbótin greiðist hlutfallslega ef starfsmaður hefur unnið hluta ársins eða er í hlutastarfi. Allir sem eru í starfi fyrstu viku í maí eða hafa starfað samfellt í 12 vikur hjá sama aðila á sl. 12 mánuðum eiga rétt á uppbótinni. 

Þá er orlofstíminn einnig hafinn og rétt að árétta helstu reglur er snúa að orlofi. Reglur um orlof eru annars vegar í kjarasamningi og hins vegar í lögum. Lágmarksorlof miðað við fullt starf er 24 dagar og hækkar það upp í 30 daga eftir starfsaldri. Nánar má lesa um ávinnslu í kjarasamningi. Starfsmenn eiga rétt á því að taka a.m.k. 20 virka daga í orlof á tímabilinu 2. maí til 15. september, í einu lagi kjósi þeir svo. Atvinnurekandi á að reyna að verða við óskum starfsmanns um orlof.  

Hér er einungis tæpt á helstu reglum um orlof og orlofsuppbót. Ef félagsmenn hafa einhverjar spurningar er þeim bent á að hafa samband við skrifstofu RSÍ.