„Ég er orðinn spenntari núna, þegar ég er búinn að æfa svona vel, heldur en ég var fyrr í æfingaferlinu. Þá var maður meira stressaður. En nú er ég búinn að segja sjálfum mér að ég sé tilbúinn í þetta. Þá breytist stressið í eftirvæntingu,“ segir rafvirkinn og rafeindavirkinn Einar Örn Ásgeirsson í samtali við heimasíðu RSÍ.
Einar, sem fagnar 21 árs afmælisdeginum þegar keppnin stendur yfir, er einn þrettán íslenskra keppenda sem er á leið í Euroskills, Evrópumót iðn- og verkgreina, sem fram fer í Herning í Danmörku dagana 9.-13. september.
Kynning á keppendum: Youtube kveikti áhuga Gunnars
Kynning á keppendum: Atvinnuleit eftir Euroskills
Einar, sem er frá Akureyri og lærði í Verkmenntaskólanum á Akureyri, keppir fyrir hönd Íslands í rafeindavirkjun. Hann er einn þriggja íslenskra keppenda í rafgreinum á mótinu. Á meðal verkefna sem bíða hans er forritun, hönnun á tölvubrettum (PCB), smárásum og bilanagreiningar, svo eitthvað sé nefnt.
Faðir Einars er forritari og hann segist snemma hafa haft áhuga á tölvum. „Mér hefur alltaf fundist gaman að forrita og langaði að læra eitthvað slíkt. Ég skildi þetta frekar fljótt og fannst þetta skemmtilegt. Þetta nám átti þess vegna vel við mig,“ segir Einar aðspurður um hvers vegna þessi námsleið hafi orðið fyrir valinu. Hann bætir við að ekki hafi skemmt fyrir að hann hafi verið búinn að heyra góða hluti um námið.

Æfingaaðstaðan á Stórhöfða er frábær.
Forritunin sjálf hefur sem fyrr segir átt vel við Einar en hann segir að undirbúningurinn fyrir Euroskills hafi svolítið opnað augu hans fyrir öðrum verkefnum innan greinarinnar. „Maður hefur fengið víðara sjónarhorn á rafeindavirkjunina og mér finnst hún enn skemmtilegri eftir þetta ferli. Mig langar að vinna við fjölbreytt störf í rafeindavirkjun, þegar þar að kemur.“
Einar Örn segist stefna á háskólanám í forritun, þegar þessum kafla lýkur, því hann segir að erfitt geti verið að fá vinnu við forritun án þess að hafa háskólapróf eða sérhæfingu í einhverju sérstöku tungumáli innan forritunarinnar. „Ég fer líklega í háskóla eftir þetta ævintýri,“ segir hann að lokum.
Æfingar fyrir keppnina hafa verið stífar í sumar. „Við fórum á fyrstu æfingarnar fyrir næstum ári síðan. Við unnum þetta mest um helgar í vetur en í sumar höfum við verið í fullu starfi við undirbúning. Ég er kominn á þann stað að mér finnst ég ekki geta orðið meira tilbúinn. Við erum búnir að æfa mjög stíft. Þessi síðasta vika fyrir keppnina hefur snúist um að undirbúa sig í huganum, taka því rólega og passa upp á heilsuna,“ segir hann af æðruleysi.
Hópurinn hefur fengið mikinn andlegan undirbúning fyrir keppnina, frá dr. Erlendi Egilssyni sálfræðingi. Einar segir Erlend hafa hjálpað mjög mikið. „Eiginlega miklu meira en ég bjóst við. En maður þarf að vera opinn fyrir þessu og taka vel eftir, svo þetta nýtist manni í keppni. Það hef ég gert og ég finn að fræðslan hans hefur hjálpað mér í gegn um keppnisrennslin.“
