Samninganefnd Afls og Rafiðnaðarsambands Íslands (RSÍ) fundaði í morgun og komst að einróma niðurstöðu um að hafna tilboði Alcoa. Á sama tíma hófst undirbúningur atkvæðagreiðslu um verkfall.

Það er ljóst að eigendur Alcoa eru ekki tilbúnir að tryggja sömu launahækkanir og sambærileg kjör og gilda í öðrum álverksmiðjum á Íslandi.

Félögin skora á eigendur Alcoa að senda fulltrúa með raunverulegt umboð til samningaborðs. Stéttarfélögin hafa fengið nóg af því að ræða við umboðslausa aðila hér á landi á meðan erlendir eigendur fyrirtækisins forðast að taka þátt í viðræðunum.

Einnig vilja félögin leggja áherslu á að þau muni ekki skrifa undir kjarasamning sem tryggir lakari kjör eða minni launahækkanir en samið hefur verið um í öðrum álverksmiðjum á Íslandi.