Félag íslenskra Rafvirkja býður áhugasömu félagsfólki til lokaæfingar fulltrúa Íslands í keppni í húsarafmagni á Euroskills. Æfingin fer fram næstu þrjá daga, á þriðjudag og miðvikudag og fimmtudag.
Euroskills er Evrópumót iðn- og verkgreina og fer fram í Herning í Danmörku dagana 9-13. september. Á mótinu keppa fulltrúar Íslands í 13 greinum.
Það verður Daniel Francisco Ferreira, sem fer út fyrir Íslands hönd og keppir í húsarafmagni. Á lokaæfingunni geta áhugasamir fylgst með Daniel setja upp verkið. Félagsfólki gefst þannig tækifæri til að fá innsýn í það verkefni sem keppandinn mun þurfa að leysa í Herning. Með því að hafa æfinguna opna gefst Daniel jafnframt gott færi á að leysa verkefnið þar sem áhorfendur eru viðstaddir. Það gæti orðið dýrmætt veganesti til Danmerkur.
Lokaæfingin fer fram þriðjudaginn 26. ágúst og miðvikudaginn 27. ágúst frá klukkan 8:30 til 16:45. Loks er hægt að fylgjast með honum forrita frá klukkan 9:00-12:00 fimmtudaginn 28. ágúst.
Æfingin fer fram í kjallaranum hjá Fagfélögunum, Stórhöfða 29-31. Athugið að gengið er inn um inngang J, sem er Grafarvogsmegin.
Einnig verður hægt að sjá æfingaaðstöðu Gunnars Guðmundssonar, sem keppir fyrir hönd Íslands í Industrial control (sjálfvirkni) og Einars Ásgeirssonar sem keppir í electronics prototyping (rafeindavirkjun).
Félagsfólk er hvatt til að fjölmenna.
Meðfylgjandi mynd er frá keppni í rafvirkjun á Íslandsmóti iðngreina 2025.
