Undirbúningur keppenda Íslands fyrir Evrópumót iðn- og verkgreina – Euroskills – er í fullum gangi. Þrettán einstaklingar munu keppa fyrir Íslands hönd í Herning í Danmörku dagana 9. – 13. september. Auk þeirra verða 14 expertar, (sérfræðingar), keppendum til halds og trausts en þeir munu einnig dæma á mótinu.
Keppendurnir hafa unnið sér þátttökurétt með framúrskarandi árangri í öðrum keppnum, svo sem á Íslandsmóti iðn- og verkgreina.
Euroskills er stærsta mót sinnar tegundar í Evrópu og fá þar um 600 þátttakendur tækifæri til að láta ljós sitt skína. Keppnisgreinar eru 38. Íslendingar eiga fulltrúa í málmsuðu, pípulögnum, rafeindavirkjun, rafvirkjun, iðnaðarstýringum, trésmíði, matreiðslu, framreiðslu, grafískri miðlun, bakstri, hársnyrtiiðn, málun og bifvélavirkjun.
Hópurinn hittist á Stórhöfða á fimmtudag, þar sem andlegur undirbúningur var í forgrunni. Auk þess var farið yfir ýmis praktísk atriði sem snýr að keppninni sjálfri og ferðalaginu. Andlegur undirbúningur er mjög mikilvægur liður í undirbúningi keppni sem þessarar.
40 klukkustundir skipulagðar til andlegs undirbúnings

Dr. Erlendur Egilsson
Lykilmaður í þessum undirbúningi er dr. Erlendur Egilsson sálfræðingur, sem unnið hefur um árabil með afreksíþróttamönnum og öðru keppnisfólki. Í erindi sem hann flutti fyrir keppendur og experta ræddi hann um hugfærni í keppni. Hann fór meðal annars yfir einbeitingu, innra og ytra áreiti við keppni, tilfinningastjórn, venjur og markmið. Þannig veitti hann þátttakendum mikilvægt veganesti til Danmerkur.
„Við skiptum þessari andlegu vinnu niður á sex daga. Þetta eru tveir heilir dagar og svo fjögur síðdegi. Krakkarnir fá samtals 40 klukkustundir við andlegan undirbúning fyrir þessa keppni,“ segir Erlendur. Hann segir að þessi andlegi undirbúningur sé sambærilegur því sem oft gerist hjá landsliðum eða öðrum liðum sem eru á leið út í stórar keppnir. „Ég hef reynslu af því að vinna með keppnisfólki að þessum málum. Ég vinn mikið með sérsamböndum innan íþróttahreyfingarinnar að þessum málum og hef góða reynslu af því. Ég nálgast þetta verkefni með sambærilegum hætti.“
Forvitin og glaðlynd
Erlendur er ánægður með hvernig staðið er að andlegum undirbúningi íslensku keppendanna. „Þetta er mjög vel í lagt. Maður vill helst hafa þetta þannig að undirbúningurinn standi yfir í langan tíma en komi ekki í kippum. Það er til að keppendurnir fái tækifæri til að nýta sér þessa fræðslu sem best og samþætta inn í það sem þau eru að fást við. Þetta er hugarfærni sem miðar að því að nýta þá færni sem maður býr yfir í háálagsaðstæðum. Nú höfum verið að hittast í nokkrar vikur og það er mjög mikilvægt.“
Erlendur er afar ánægður með keppnishópinn. „Ég er mjög hrifinn af því hvað þau eru vel stemmd og ég hef tekið eftir því hvað þau eru fær að leysa vandamál. Þau eru líka bæði forvitin og glaðlynd. Hér hefur vel tekist upp við að finna góða fulltrúa fyrir okkar hönd,“ segir Erlendur.
Vel staðið að undirbúningi
Hann mun fylgja hópnum til Herning og vera til taks, ef á þarf að halda. Hann segir einnig mikilvægt fyrir hann sjálfan að fá tækifæri til að fylgjast með keppninni, svo til verði fagleg reynsla sem hægt sé að nýta fyrir andlegan undirbúning næstu keppna. „Þetta umhverfi er auðvitað ólíkt knattspyrnuleik eða Ólympíuleikum. Það kemur sér vel að fá að kynnast þessu keppnisumhverfi, svo ég hafi meira fram að færa næst,“ segir hann.
Erlendur er mjög hrifinn af hversu vel er haldið á undirbúningi og skipulagningu fyrir íslenska hópinn. „Þeir sem standa að þessu gera þetta mjög vel. Það er virkilega flott hversu mikið er lagt í þetta – það mun nýtast keppendunum gífurlega vel,“ segir hann að lokum.
Hópurinn flýgur út til Danmerkur 7. og 8. september og því má segja að undirbúningurinn sé nú á lokametrunum. Verkiðn stendur að framkvæmd þátttöku Íslands á Euroskills. Keppendur Íslands eru á aldrinum 19 til 25 ára.
Á meðfylgjandi mynd eru 10 af 13 keppendum.
Keppendur fyrir Íslands hönd á Euroskills verða:
| Málmsuða | Sigfús Björgvin Hilmarsson | |
| Pípulagnir | Ezekiel Jakob Hanssen | |
| Rafeindavirki | Einar Örn Ásgeirsson | |
| Rafvirki | Daniel Francisco Ferreira | |
| Iðnaðarstýringar | Gunnar Guðmundsson | |
| Trésmíði | Freyja Lubina Friðriksdóttir | |
| Matreiðslumaður | Andrés Björgvinsson | |
| Framreiðslumaður | Daníel Árni Sverrisson | |
| Grafísk miðlun | Jakob Bjarni Ingason | |
| Bakari | Guðrún Erla Guðjónsdóttir | |
| Hársnyrtiiðn | Bryndís Sigurjónsdóttir | |
| Málun | Hildur Magnúsdóttir | |
| Bifvélavirkjun | Adam Stefánsson | |
